Samkeppniseftirlitið hefur beint því til viðskiptabanka í eigu ríkisins að leggja samkeppnislegt mat á ákvarðanir um framtíð fyrirtækja.

Mikilvægt sé að við ákvarðanatöku sem varðar framtíð fyrirtækja sé höfð hliðsjón af þeim mikilvægu hagsmunum almennings og viðskiptalífsins að virk samkeppni geti þrifist á sem flestum mörkuðum hérlendis.

Í fréttatilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu eru nefndar tíu meginreglur sem bankarnir eru hvattir til þess að hafa til hliðsjónar við ákvarðanatöku.

Meginreglurnar fjalla m.a. um eftirfarandi:

- Að sú ráðstöfun sé valin sem raskar samkeppni sem minnst.

- Að ekki sé stofnað til aukinnar fákeppni eða óæskilegra stjórnunar- og eignatengsla, heldur leitast við að draga úr slíku ástandi.

- Að hagsmunir tveggja keppinauta séu ekki á hendi sömu aðila.

- Að hlutlægni í ráðstöfun eigna sé tryggð.

- Að skapaðir séu möguleikar fyrir nýja aðila til að koma inn á samkeppnismarkaði og dreifðara eignarhaldi fyrirtækja.

- Að tilnefndur sé ábyrgðaraðili samkeppnismála sem hafi umsjón með samkeppnislegu mati á ráðstöfunum og að ferli við töku ákvarðana sé gegnsætt og skrásett.

Í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins segir jafnframt að viðkomandi aðilum beri að gera opinberlega grein fyrir ferlum og vinnureglum sem miða eigi að framangreindum meginreglum.

„Meginreglurnar eiga einnig við um ákvarðanir skilanefnda sem stýra forverum bankanna, auk þess sem æskilegt er að þær séu hafðar til hliðsjónar af opinberum aðilum sem kynnu að taka ákvarðanir um hagsmuni fyrirtækja á samkeppnismarkaði.“

Framangreindar meginreglur eru birtar í áliti nr. 3/2008 , Ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum.