Yfirlýsing forsætisráðuneytis er tímabær og mjög mikilvægt skref í þá átt að slá á verðbólguvæntingar, segir greiningardeild Landsbankans.

Ríkisstjórnin hefur tilkynnt um sérstakar aðgerðir til að berjast gegn þenslu. Verður lánshlutfall Íbúðalánasjóðs lækkað tímabundið og hámarkslán um leið. Sömuleiðis er ákveðið að fresta útboðum og upphafi nýrra framkvæmda.

"Takmarkanir á útlánum Íbúðalánasjóðs ættu að flýta fyrir kólnun á fasteignamarkaði, á sama hátt og takmarkanir á útlánum bankanna. Minni fasteignaverðhækkanir draga úr vilja og getu almennings til að lánsfjármagna einkaneyslu, en minni einkaneysla er ein af mörgum mikilvægum forsendum þess að tök náist á verðbólgunni," segir greiningardeild Landsbankans.

Yfirlýsingin er öllu óljósari varðandi frestun verklegra framkvæmda, að mati greiningardeildarinnar, ?þar sem ekki er minnst á einstök verkefni né sett fram tímamörk varðandi viðræður við sveitarfélögin. Slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar til að gera yfirlýsinguna trúverðuga, þannig að hún slái á verðbólguvæntingar."

Greiningardeildin hefur eftir fjármálaráðherra í hádegisfréttum RÚV að umfang framkvæmdanna sem fresta eigi sé um 3 milljarða króna eða sem nemur 0,3% af landsframleiðslu.

?Ljóst er að það mun ekki skipta sköpum í baráttunni við verðbólguna og er því ekki líklegt til að slá á verðbólguvæntingar. Það er því mikilvægt að samstarf ríkis og sveitarfélaga um samdrátt í framkvæmdum skili marktækum árangri," segir greiningardeildin.