Þýska kauphöllin Deutsche Börse hefur keypt 5% hlut í kauphöllinni í Bombay (BSE), en kaupverð hlutarins er um 61,5 milljarðar króna, segir í frétt BBC.

Forstjóri BSE, Rajnikant Patel, segir að kaupverðið sé hagstætt fyrir Deutsche Börse og endurspegli andvirði kauphallarinnar. Hann sagði jafnframt að með samningum væri stigið stórt skref í að færa alþjóðamarkaði til Indlands.Talið er að BSE, sem er elsta kauphöllin í Asíu, muni selja 26% hluta fyrirtækisins, að hámarki 5% hlut á hvern kaupanda, en kauphöllin í Singapore segist nú eiga í viðræðum við BSE um kaup á 5% hlut.

Talsmaður Deutsche Börse segir að með samningunum muni kauphöllunum opnast ný tækifæri til vaxtar, en þeim munu bjóðast fleiri tegundir viðskipa og njóta sameiginlegra kynningarstarfa. Forstjóri Deutsche Börse, Reto Francioni, segir að kaupin marki mikilvægt skref í útrás kauphallarinnar til Asíu. "Fjármálamarkaðir eru sífellt að verða alþjóðavæddari og með þessum samningi munu kauphallirnar njóta styrkleika hvor annarar og á sama tíma tryggjum við fyrirtækinu stöðu í Asíu," segir Francioni.

Á síðasta ári gerði Deutsche Börse tilraun til yfirtöku á evrópsku kauphöllinni Euronext, en Euronext kaus heldur samstarf við kauphöllina í New York, þrátt fyrir mótstöðu evrópskra stjórnvalda og hagsmunaaðila. Forsætisráðherra Þýskalands, Angela Merkel og forseti Frakklands, Jacques Chirac, höfðu bæði lýst yfir stuðningi við samruna Deutsche Börse og Euronext.