Sigríður Dögg Auðunsdóttir hefur verið ráðin ritstjóri Fréttatímans við hlið Jónasar Haraldssonar. Mikael Torfason stoppaði stutt við í ritstjórastólnum. Hann var ráðinn ritstjóri blaðsins við hlið Jónasar seint í ágúst í fyrra.

Fram kemur í tilkynningu frá Fréttatímanum að Sigríður Dögg hefur tekið virkan þátt í þróun og eflingu blaðsins undanfarið ár sem hefur skilað auknum lestri og ánægju með blaðið.

Sigríður Dögg hefur starfað í fjölmiðlum frá árinu 1999 þegar hún hóf störf á Morgunblaðinu. Hún var fréttaritari blaðsins í London um skeið og vann við fjölmiðla þar í landi fram til ársins 2004 þegar hún hóf störf á Fréttablaðinu. Þar hlaut hún viðurkenningu fyrir skrif sín, meðal annars um einkavæðingu bankanna. Hún stofnaði eigið vikublað, Krónikuna, árið 2007, sem var yfirtekið af útgáfufélagi DV síðar það ár og var hún aðstoðarritstjóri DV fram til ársins 2008.