Bandaríski afþreyingarrisinn Walt Disney hefur krafist þess að opinber rannsókn fari fram á starfssemi bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers síðustu vikurnar fyrir gjaldþrot bankans.

Disney bætist þar í hóp fjölmargra fyrirtækja sem segjast hafa farið illa út úr viðskiptum við Lehman Brothers en eins og kunnugt er varð bankinn gjaldþrota þann 15. september síðastliðinn.

Fram kemur í frétt BBC að Disney skuldar nú rúmlega 90 milljónir Bandaríkjadala vegna hruns bankans, fjármagn sem Disney hafði lánað bankanum áður.

Forsvarsmenn Disney vilja fá upp á yfirborðið hvort og þá hvernig flutningi á fjármagni frá bankanum átti sér stað síðustu vikurnar fyrir gjaldþrotið.

Grunur Disney manna er að óeðlilegar tilfærslur hafi átt sér stað milli Lehman Brothers og dótturfélag þess, Lehman Brothers Commercial.

„Þegar lánadrottnar tapa fjármagni vilja þeir fá að vita af hverju og hvernig,“ segir Martin Bienenstock, lögmaður Disney og bætir því við að ekkert óeðlilegt sé við það að fara fram á opinbera rannsókn þar sem mörg fordæmi séu fyrir því.

Kæra Disney verður tekin fyrir í dómsstólum þann 5. nóvember næstkomandi.