Walt Disney-samsteypan gerir ráð fyrir að hafa um einn milljarð dollara, eða um 68 milljarða króna, í tekjur af sölu efnis á netinu á þessu ári, að því er forstjóri félagsins, Robert Iger, sagði í gær. Kvað hann Disney hafa sótt alldjarflega inn á netmarkaðinn til að hnýta fastar böndin á milli neytenda og helsta varnings félagsins og búa til nýja tekjustofna.

„Ef við erum ekki á netinu fer fólk bara eitthvert annað,” sagði hann á ráðstefnu á vegum Baer Stearn-fjárfestingarbankans á Palm Beach í Flórída í gær.

Nettekjur Disney’s koma m.a. frá auglýsingasölu í tengslum við endursýningar á vinsælum sjónvarpsþáttum á borð við Lost (Glötuð) og Grey’s Anatomy (Líffærafræði Grey’s læknis), en þeir eru fáanlegir um vefsíður ABC.com, áskrift af leikjum á netinu og niðurhali á bíómyndum og tónlist, svo eitthvað sé nefnt.

Þó að nettekjur félagsins hafi aukist til muna eru þær þó enn aðeins lítill hluti heildartekna, sem voru áætlaðar 35,5 milljarðar dollara á seinasta ári.