Katrín S. Óladóttir er framkvæmdastjóri og meðeigandi ráðgjafafyrirtækisins Hagvangur. Hún hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 1983 auk þess sem hún er fyrrverandi formaður Félags kvenna í atvinnulífinu. Katrín hefur því haft góða yfirsýn yfir þær breytingar sem hafa orðið á vinnumarkaði frá þeim tíma.

Miklar breytingar á vinnumarkaði

„Störfin hafa breyst mjög mikið síðan ég byrjaði hjá Hagvangi árið 1983. Vinnuhættir breyttust  mikið þegar tölvutæknin hóf innreið sína á níunda áratugnum og störf fóru að breytast í takt við það auk þess sem ný fyrirtæki fóru að koma inn á markaðinn. Þetta hafði mikil áhrif og vinnumarkaðurinn breyttist mikið. Það komu fram ný störf sem kölluðu á nýja þjálfun og þekkingu auk þess sem stjórnskipulag fyrirtækja breyttist og fleiri stjórnendur með ákveðna sérþekkingu fóru að verða meira áberandi.  Þessi þróun hélt áfram af krafti allt fram undir 1990,“ Segir Katrín.

Jafnrétti fór að verða sýnilegt og eðlilegt

Spurð hvernig staða kvenna hafi breyst á þessum 30 árum segir Katrín að vinnumarkaðurinn hafi verið mikið einsleitari og tiltölulegar fáar konur í stjórnunarstörfum þegar hún hóf störf.  Með aukinni menntun kvenna á níunda áratugnum fór að bera meira á kvenstjórnendum, s.s. í starfi fjármálastjóra, markaðsstjóra o.fl.

Í fyrstu bar mest á kvenstjórnendum í starfi fjármálastjóra. Henni finnst konur hafa byrjað þar að verða sýnilegar í viðskiptalífinu. „Það eru í raun ekki mörg ár síðan konur fóru að taka að sér stjórnunarstörf í viðskiptalífinu.“

Segir Katrín að á árunum milli 1986- 1990 hafi konur farið að sækjast eftir stjórnunarstöðum um leið og þær komu úr háskóla. Við það hafi menningin breyst með tilliti til þess að þá voru konur orðnar stór hluti af þeim sem fór í háskólanám. „Með 70-kynslóðinni byrjar  hugsunin  að breytast, jafnrétti fór að verða sýnilegt og eðlilegt. Eftir kvennafrídaginn varð mikil vakning í huga kvenna og fólks almennt. Svo varð önnur stökkbreyting þegar fæðingarorlofið var lengt og karlmenn fengu að taka fæðingarorlof.”

Staða kvenna á vinnumarkaði

Þegar talið berst að stöðu kvenna á vinnumarkaði í dag segir Katrín: „Ég hef gagnrýnt konur örlítið fyrir það að þegar ég hef verið að auglýsa stjórnunarstörf þá finnst mér halla á það að konur sæki um. Þær sækja ekki eins um eins og karlarnir.“ Hún segir konur þurfa að einhverju leyti að líta í eigin barm og segja við sjálfan sig: „Ef ég vil geta náð einhverjum árangri þá verð ég að bera mig eftir því. Segir Katrín það ekki vera eðlilegt að þegar auglýst eru flott  stjórnunarstörf  að 40 karlar sæki um en einungis 10-15 konur. „Karlmenn þora að sækja um í meiri mæli en konur og þessu þurfa konur að breyta.

Ég sé það í dag að það er enginn munur á ungum konum og ungum körlum sem eru að fóta sig á vinnumarkaðnum eftir háskólanám.“

Spurð hvort hún hafi einhver  skilaboð til ungra kvenna sem eru að ljúka háskólanámi segir Katrín: „Það er ekkert sem hindrar konur í að þær nái framgangi. Ég fullyrði það að við ráðningar er ekki horft kynbundið á lausnina. Til dæmis notum við hjá Hagvangi persónuleikapróf (Hogan)  þar sem kynin standa algjörlega jöfn. Persónuleikaprófin eru í rauninni besta tækið í  jafnréttisbaráttunni.  Þau eru hlutlaus gagnvart kyni og munu því meta konur að verðleikum.“

Nánar er rætt við Katrínu í Áhrifakonum , fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .