Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, mun taka við stöðu aðstoðarforstjóra Kviku banka af Ármanni Þorvaldssyni sem mun einbeita sér að uppbyggingu á starfsemi Kviku í Bretlandi. Þá tekur Eiríkur Magnús Jensson við af Ragnari Páli Dyer sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Kviku sem hefur óskað eftir að láta af störfum. Baldur Stefánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku, lætur auk þess af störfum.

Stjórn Kviku samþykkti í morgun tillögu forstjóra um breytt skipurit, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Markmið breytinganna er að gera félagið betur í stakk búið til þess að halda áfram að ná árangri í rekstri. Skipulagið er aðlagað að stækkandi félagi sem er leiðandi í að halda áfram að auka samkeppni og nýsköpun á fjármálamarkaði. Jafnframt eru breytingarnar í samræmi við markmið og áherslur í stefnumótun sem kynnt var í nóvember 2021.“

Sigurður Viðarsson, sem hefur gegnt stöðu forstjóra TM frá árinu 2007, færir sig nú yfir í starf aðstoðarforstjóra Kviku. „Í kjölfar samruna TM og Kviku hefur sífellt vaxandi þáttur í mínum störfum tengst málefnum samstæðunnar og ég tel þetta skref því vera rökrétt, bæði fyrir mig og félagið,“ segir Sigurður.

Ármann Þorvaldsson hefur verið aðstoðarforstjóri Kviku frá árinu 2019 en þar áður var hann forstjóri bankans frá árinu 2017. Hann mun nú einbeita sér að uppbyggingu á starfsemi Kviku í Bretlandi. Ármann mun halda áfram sem stjórnarformaður í dótturfélögum bankans í Bretlandi ásamt því að sinna afmörkuðum verkefnum fyrir Kviku.

Eiríkur Magnús Jensson hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs hjá Kviku. Eiríkur hefur starfað í Arion banka og forverum hans frá árinu 1988, lengst af við fjármögnun bankans. Undanfarin ár hefur hann verið forstöðumaður fjárstýringar.

Hann tekur við starfinu af Ragnari Páli Dyer sem hefur óskað eftir að láta af störfum. Fram kemur að Ragnar muni áfram sitja í stjórnum TM og Kviku Securities í London.

Baldur Stefánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku, mun einnig láta af störfum á næstu vikum og hyggst hann hefja eigin rekstur. Gengið hefur verið frá viljayfirlýsingu þess efnis að Kvika komi að þeim rekstri.

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kviku Securites, mun koma nýr inn í framkvæmdastjórn samstæðu Kviku.

Nýtt tekjusvið

Kvika tilkynnir jafnframt um að hluti viðskiptabankasviðs og fjárfestingabankasvið muni mynda nýtt tekjusvið, fyrirtæki og markaðir, sem áætlað er að sviðið taki til starfa þann 1. janúar næstkomandi. „Nýtt tekjusvið mun skerpa á sérstöðu Kviku í þjónustu við fyrirtæki og fjárfesta og auðvelda félaginu að nýta aukinn fjárhagslegan styrk til bættrar þjónustu við viðskiptavini.“

Sviðið verður samsett úr fjórum deildum: Verðbréfa- og gjaldeyrismiðlun, fyrirtækjaráðgjöf og fyrirtækjalán.

Bjarni Eyvinds Þrastarson verður framkvæmdastjóri fyrirtækja og markaða en hann hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs.

Aðstoðarframkvæmdastjóri sviðsins og forstöðumaður fyrirtækjalána verður Magnús Guðmundsson, sem hefur gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs. Vilhjálmur Vilhjálmsson verður áfram forstöðumaður gjaldeyrismiðlunar.

Erlendur Davíðsson hefur verið ráðinn í stöðu forstöðumanns fyrirtækjaráðgjafar. Erlendur hefur reynslu á fjármálamarkaði sem nær aftur til ársins 2005. Síðustu ár starfaði hann sjálfstætt við fyrirtækjaráðgjöf og þar á undan m.a. sem sjóðstjóri og forstöðumaður hlutabréfasjóða hjá forvera Kviku eignastýringar og í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka.

Eftir breytingarnar verða tvö tekjusvið rekin í Kviku banka, viðskiptabanki annars vegar og fyrirtæki og markaðir hins vegar. Því til viðbótar eru þrjú tekjusvið rekin í dótturfélögum: TM, Kvika eignastýring og Kvika Securites í Bretlandi.

„Frá sameiningu Kviku banka, TM og Lykils hafa stjórnendur og starfsfólk samstæðunnar unnið ötullega að því að ná þeim fjárhagslegu markmiðum sem sett voru við samrunann. Það er mat stjórnenda að fjárhagslegum markmiðum hafi verið náð á skemmri tíma en áætlað var.“

Marinó Örn Tryggvason:

„Kvika hefur breyst mikið á undanförnum árum. Þegar ég hóf störf hjá félaginu voru starfsmenn innan við 90, en eru nú yfir 350. Auk þeirra vinna tugir verktaka að þróun margvíslegra nýjunga, sem verða kynntar á næstu mánuðum. Eitt af markmiðum Kviku er að auka samkeppni á fjármálamarkaði og í því skyni erum við stöðugt að þróa nýjar vörur sem auka fjölbreytni og valkosti viðskiptavina.

Samruni Kviku og TM hefur gengið vonum framar og fjárhagslegur ávinningur náðst mun fyrr en ráð var fyrir gert. Það er eðlilegt að vöxtur samstæðunnar og sú reynsla sem fengist hefur frá samrunanum kalli á breytingar á því skipulagi sem lagt var upp með í aðdraganda samrunans. Ég er mjög ánægður með þær breytingar sem fyrir liggja og tel þær gera okkur enn betur í stakk búin til að halda áfram að ná árangri.

Ég vænti þess að með því að skerpa á verkaskiptingu tekjusviða geti náðst aukinn árangur. Nýtt svið, fyrirtæki og markaðir, mun geta nýtt fjárhagslegan styrk bankans til þess að þjónusta fyrirtæki og markaðsaðila enn betur. Á viðskiptabankasviði verður áhersla áfram á sjálfvirkar lausnir. Unnið er að þróun ýmissa nýjunga sem munu auka verulega samkeppni á banka- og greiðslumiðlunarmarkaði.

Það er mikill fengur fyrir Kviku að fá til liðs við okkur Eirík Magnús, sem er einn öflugasti og reynslumesti sérfræðingur landsins í fjármögnun banka. Veruleg tækifæri eru til að bæta fjármögnunarkjör félagsins, sem styrkir stöðu Kviku í samkeppni við aðrar fjármálastofnanir. Ég vænti einnig mikils af Erlendi, hann er reynslumikill sérfræðingur og tekur við góðu búi í fyrirtækjaráðgjöfinni.

Ég vil þakka Ármanni fyrir störf hans fyrir félagið. Við Ármann hófum störf hjá Kviku á sama tíma árið 2017, hann sem forstjóri og ég sem aðstoðarforstjóri. Tveimur árum síðar höfðum við svo stólaskipti. Það hafa verið forréttindi að starfa með Ármanni og án hans væri félagið vart á þeim stað sem það er í dag. Reynsla Ármanns er verðmæt og hann hefur kennt mér mikið. Ég er mjög ánægður með að Ármann gegni áfram mikilvægu hlutverki fyrir samstæðuna og hlakka til þess að starfa áfram með honum í nýju hlutverki.

Ragnar hefur starfað lengi fyrir Kviku og tekið virkan þátt í uppbyggingu félagsins, fyrst sem framkvæmdastjóri Júpíter (nú Kvika eignastýring) og svo sem fjármálastjóri. Hann hefur gegnt stöðu fjármálastjóra síðan ég tók við sem forstjóri og þann tíma verið minn nánasti samstarfsmaður. Ragnar hefur verið öflugur starfsmaður, stjórnandi og vinur. Ég er honum þakklátur fyrir hans góðu störf og ánægður með að hann muni áfram gegna stjórnarstörfum innan samstæðunnar.

Baldur er einn af fyrstu starfsmönnunum sem ég tók þátt í að ráða til félagsins. Baldur hefur náð góðum árangri í að byggja upp starfsemi fyrirtækjaráðgjafar bankans og á hans vakt hefur ráðgjöfin komið að, og lokið, fjölmörgum verkefnum. Eitt verkefni stendur upp úr í samstarfi okkar Baldurs, en það var þegar við unnum saman í ráðgjöf til stjórnenda Icelandair í endurfjármögnun félagsins eftir að Covid-19 faraldurinn skall á.

Við Sigurður höfum átt einstaklega gott samstarf frá sameiningu Kviku og TM og ég hlakka til þess að vinna enn nánar með honum. Sigurður er reynslumikill stjórnandi sem hefur náð miklum árangri í sínum störfum og ég veit að reynsla hans og hæfni verða mikilvæg við þróun félagsins áfram.“

Sigurður Viðarsson:

„Eftir 15 farsæl og ánægjuleg ár hjá TM tekst ég fullur tilhlökkunar á við nýja áskorun hjá Kviku banka. Í kjölfar samruna TM og Kviku hefur sífellt vaxandi þáttur í mínum störfum tengst málefnum samstæðunnar og ég tel þetta skref því vera rökrétt, bæði fyrir mig og félagið. Ég kveð frábært samstarfsfólk og góða félaga til margra ára, en verð sem betur fer ekki langt undan á mínum nýja vettvangi.“