Loksins virðist fjórða félagið vera að skjóta rótum á markaðnum fyrir eldsneyti til almennings eftir að Skeljungur, Olís og Esso höfðu skipt með sér kökunni alla síðustu öld. Á aðeins nokkrum mánuðum hefur Atlantsolía stuðlað að meiri breytingu á samkeppnisumhverfinu en orðið hefur í áratugi utan þess þegar dóttufyrirtæki Skeljungs, Orkan, kom fyrst á markað upp úr 1995.

Þrátt fyrir að vera með einungis tvær sjálfsafgreiðslustöðvar af rúmlega 60 bensínstöðvum sem bjóða upp á sjálfsafgreiðslu á höfuðborgarsvæðinu virðist félagið hafa ákvarðað verðstefnuna í Kópavogi og Hafnarfirði en þar er verðið mun lægra en í öðrum bæjarfélögum í kring. Félagið er þó hvergi nærri hætt og hyggst reisa 7 sjálfsafgreiðslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu á næstu misserum. Það hefur þegar fengið vilyrði fyrir byggingu bensínstöðvar að Bústaðavegi 151 sem mun að öllum líkindum setja mikinn þrýsting til lækkunar verðsins í Reykjavík. Forsvarsmenn félagsins ætla sér ekki að láta þar staðar numið heldur hafa auglýst eftir lóðum utan höfuðborgarsvæðisins og hafa fengið góð viðbrögð við þeim auglýsingum.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.