Búast má við miklum breytingum á Smáralind og svæðinu í kring á næstu árum. Stórir leigusamningar við Hagkaup og Debenhams enda árið 2017. Þá er stefnt á að minnka Hagkaupsverslunina um helming og koma fyrir verslunum og þjónustu á því svæði þar sem norðurhluti verslunarinnar er núna. Vesturendi hússins, þar sem Debenhams er í dag, gæti einnig verið endurskipulagður.

„Það sem hefur alltaf einkennt Smáralind umfram til dæmis Kringluna eru þessi stóru leigurými, sem voru kannski styrkur á sínum tíma en verið veikleiki að okkar mati að vissu marki. Þess vegna erum við að breyta þeim,“ útskýrir Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins. „Við viljum fá þarna þekkt merki og fjölga merkjum, eins og við höfum náttúrulega verið að gera,“ segir hann og vísar meðal annars til Lindex í því samhengi.

Sunnan Smáralindar er stefnt að því að reisa þétta íbúðabyggð með um 500 íbúðum. Um er að ræða samstarfsverkefni Regins og þróunarfélagsins Klasa. Helgi segir að framkvæmdir geti jafnvel hafist á næsta ári og að stefnt sé að því að ljúka uppbyggingunni á um það bil átta árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Athugasemd: Í prentútgáfu Viðskiptablaðsins segir að til greina komi að koma fyrir fjölda verslana og þjónustuaðila í vesturenda Smáralindar. Það skal áréttað að engin ákvörðun hefur verið tekin um breytingar í rýminu.