Erna Gísladóttir er forstjóri og eigandi bílaumboðsins BL. Hún er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og er með  MBA  gráðu frá  IESE-háskólanum í  Barcelona. Erna er í raun þriðja kynslóð stjórnenda hjá  BL  en afi hennar stofnaði fyrirtækið árið 1954. Hún er dóttir Gísla Guðmundssonar, fyrrverandi  eiganda  og  stjórnarformanns B&L til margra ára. Hún hóf störf hjá fyrirtækinu árið 1987 og gegndi starfi framkvæmdastjóra frá árinu 1991 til 2008 þegar eigendaskipti urðu á  fyrirtækinu. Árið 2011 keypti Erna ásamt eiginmanni sínum, Jóni Þór Gunnarssyni, B&L ásamt bílaumboðinu Ingvar Helgason. Voru fyrirtækin tvö sameinuð undir nafninu BL.

Miklar breytingar á markaðnum

Erna segir að það hafi orðið miklar breytingar á íslenskum bílamarkaði frá árinu 2011. „ Við höfum farið úr mjög lítilli sölu í það að árið í ár verður líklega metár eða mjög svipað og stærsta árið fyrir hrun. Við höfum vaxið mikið, sérstaklega síð- ustu þrjú árin.“ Þess má geta að BL bætti í maí síðastliðnum ellefu ára gamalt met í fjölda nýskráðra bíla í einum mánuði.

„Stærsta breytingin á markaðnum núna eru bílaleigubílarnir sem voru um 15% af seldum bílum en eru núna upp undir helmingur. Síðustu 18 mánuði höfum við loksins séð almenning koma og endurnýja í stærra hlutfalli en var áður,“ segir Erna.  „Loksins núna þegar kaupmátturinn er að aukast kemur fólk og endurnýjar bílinn.“

Bylting í bílaiðnaði

Þegar talið berst að þeim breytingum sem eru að verða í bílaiðnaðinum með bæði sparneytnari og jafnvel sjálfkeyrandi bílum segir Erna: „Ég held að breytingin verði mjög hröð. Við eigum eftir að horfa upp á deilihagkerfið taka meira upp sameiginlega nýtingu á bílum og mörg heimili sem í dag eru með tvo bíla þurfa ekki nema einn.“ Bendir Erna sem dæmi á að fáir hafi getað séð fyrir þær miklu breytingar sem áttu sér stað eftir að Apple setti iPhone-símann á markað. „Ég held þetta verði svipað í bílunum. Ég held við séum að horfa á að á næstu fimm árum verði mikil bylting í bílaiðnaði.“

Nánar er rætt við Ernu í Áhrifakonum , fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .