Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á stjórn CCP, en á aðalfundi félagsins í dag var ný stjórn kjörin. Úr stjórninni ganga þeir Vilhjálmur Þorsteinsson, Sigurður Ólafsson og David Falkow. Í þeirra stað koma Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, og Adam Alexander Valkin, framkvæmdastjóri hjá General Catalyst Partners í Bandaríkjunum. Stjórn fyrirtækisins uppfyllir því nú lögbundnar kröfur um kynjaskiptingu stjórnarmanna.

Áfram eiga sæti í stjórn CCP þeir Birgir Már Ragnarsson, meðeigandi Novator Partners í London, Stephan Wieck, forstjóri OneBookShelf. Sjálfkjörið var í stjórn CCP. Sigurður Ólafsson, sem er stjórnarmaður í Novator, er nú varamaður í stjórn og Isaac Kato, fjármálastjóri Verne Global, er áfram varamaður í stjórn CCP.

Ekki er ljóst ennþá hver verður stjórnarformaður fyrirtækisins, en fyrsti fundur nýkjörinnar stjórnar var haldinn strax að loknum aðalfundi.