Samkvæmt nýútgefinni skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar hefur gagnamagnsnotkun Íslendinga aukist gríðarlega á stuttum tíma. Gagnamagnsnotkun á farsímaneti hefur þannig til að mynda aukist um rúm 690% frá fyrri hluta árs 2013 til fyrri hluta ársins 2016 eða úr tæpum 900.000 GB í tæp 7.200.000 GB.

Hlutdeild fjarskiptafyrirtækisins Nova á þessum markaði vekur sérstaka athygli en gögn sýna að viðskiptavinir fyrirtækisins nýta sér tæp 65% af heildargagnamagni í gegnum farsímanet. Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, segir markaðshlutdeild fyrirtækisins hvað þetta varðar ekki koma á óvart.

Gagnamagnsnotkun 1
Gagnamagnsnotkun 1
© vb.is (vb.is)

Gagnamagnsnotkun 2
Gagnamagnsnotkun 2
© vb.is (vb.is)

Miklar breytingar á tekjumynstri fjarskiptafélaga

Að sögn Liv hefur orðið mikil breyting á tekjumynstri fjarskiptafélaganna. „Viðskiptamódel fjarskiptafyrirtækja um allan heim hefur verið að breytast og það sama má segja um Ísland. Fólk fær sífellt meira fyrir peninginn en meðalreikningurinn er ekki að hækka. Hér áður fyrr var greitt fyrir símtöl og SMS en í dag kostar sú þjónusta minna en í staðinn er greitt fyrir netið. Áður fyrr komu meiri tekjur af símtölum til útlanda og notkun síma erlendis. Í dag er það mun minna en í staðinn borgar fólk fyrir netið og notar farsímann sinn í það sem það vill.

Uppbygging fjarskiptakerfanna er mjög kostnaðarsöm og það þarf tekjur til að mæta þeim fjárfestingum. Það er áskorun að byggja öflugt og afkastamikið fjarskiptakerfi og geta sífellt boðið meiri hraða og meira gagnamagn fyrir sama verð – en það er nákvæmlega það sem þarf að gera til að standa sig í samkeppninni um hylli neytenda,“ útskýrir Liv.

Aukningin mun halda áfram

Spurð um framtíðina og hvort hún telji að gagnamagnsnotkun muni halda áfram aukast svo ört segist Liv telja að svo verði.

Nánar er fjallað um máið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.