Í gær var tekinn í notkun nýr og verulega endurbættur vefur Já.is. Þróunarvinna við hinn nýja vef hefur staðið yfir í um eitt og hálft ár og hafa allir hlutar hans verið teknir til endurskoðunar með það fyrir augum að gera vefinn aðgengilegri, hraðvirkari og nytsamlegri jafnt fyrir notendur og þá sem vilja koma vöru sinni og þjónustu á framfæri.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Já.

Þá kemur fram að meðal stærstu breytinga er skýrari skipting milli einstaklinga og fyrirtækja, þar sem öll fyrirtæki hafa verið færð undir Gulu síðurnar og einstaklingar fá sérstakt leitarsvæði.

Hraðleit á forsíðu Já.is leitar bæði í gagnagrunni einstaklinga og fyrirtækja en skilar svörum þannig að auðvelt er að sjá hvort um fyrirtæki eða einstakling er að ræða hverju sinni.

Með því að smella á flipa má síðan velja hvort eingöngu eru skoðaðar niðurstöður fyrir einstaklinga eða fyrirtæki. Áfram verður hægt að leita eftir leitarorðum á borð við „veitingahús“, „hárgreiðslustofa“ og þar fram eftir götum til að finna ákveðna tegund þjónustu.

„Jafnframt hefur orðið bylting í framsetningu korta á nýja vefnum og er hið nýja Íslandskort Já.is með þeim nákvæmustu sem almenningi gefst aðgangur að,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur fram að kortið inniheldur nákvæmar upplýsingar allar götur, þjóðvegi og helstu slóða landsins, þannig að hægt er að slá inn upphafs- og endastað og fá ítarlegar akstursleiðbeiningar um hvernig komast megi milli viðkomandi staða.

„Á okkur hvílir mikil ábyrgð að leggja í svo umfangsmiklar breytingar, enda nota yfir 86% þjóðarinnar Já.is reglulega,“ segir Gunnar Thorberg Sigurðsson, markaðsstjóri Já í tilkynningunni.

„Við erum þess þó fullviss að notendur eigi eftir að verða ánægðir, enda höfum við lagt mikla vinnu í að gera nýja vefinn sem aðgengilegastan og þægilegastan. Hraðvirkari leit, skýrari leitarniðurstöður og bylting í framsetningu korta mun án efa gera það að verkum að vefurinn muni nýtast íslenskum heimilum og fyrirtækjum enn betur á komandi árum.“