Stjórn Samherja hf. samþykkti á fundi sínum í dag að kaupa 65% hlutafjár í þýska útgerðarfélaginu CR Cuxhaven Reederei GmbH, en fyrir átti félagið 35% eignarhlut í félaginu. Kaupverð nemur 17,3 milljónum evra. Jafnframt samþykkti stjórnin kaup dótturfyrirtækisins Onward Fishing Company Ltd. á 50% hlut í Boyd Line Ltd í Hull. Kaupverð 50% hlutar í Boyd Line nemur um 6,5 milljónum punda. Veiðiheimildir þeirra fjögurra fyrirtækja í Evrópusambandinu sem Samherji á nú aðild að nema um 20 þúsund þorskígildistonnum og er helmingur þessara veiðiheimilda eða um 10 þúsund tonn þorskur. Til samanburðar má geta að veiðiheimildir Samherja á Íslandsmiðum nema um 25 þúsund þorskígildistonnum.

CR Cuxhaven Reederei GmbH á þýsku útgerðafélögin DFFU og Elke M í Cuxhaven og 51% eignarhlut í pólska útgerðarfélaginu Atlantex. DFFU gerir út tvo frystitogarar og í Póllandi gerir Atlantex út frystitogarann Wiesbaden og hefur rekstur skipanna gengið vel á árinu. Seljendur 65% hlutafjárins í CR eru Þorsteinn M. Baldvinsson, Kristján Vilhelmsson, Finnbogi Baldvinsson og Kaldbakur hf. en þessir aðilar keyptu þennan hlut á árinu 2000 af Samherja hf. Rekstur félagsins var þá erfiður en í kjölfar endurskipulagningar hafa orðið veruleg umskipti í rekstrinum og er félagið nú rekið með ágætum hagnaði. Heildarkaupverð nemur 17,3 milljónum evra, eins og áður sagði, eða ríflega 1.500 milljónum króna og verður um helmingur kaupverðs greiddur með eigin bréfum í Samherja hf. á genginu 12,2.

Gengið hefur verið frá kaupum UK Fisheries Ltd. á öllum hlutabréfum í Boyd Line Ltd í Hull. Félag þetta er að hálfu í eigu dótturfélags Samherja í Skotlandi, Onward Fishing Company, og að hálfu í eigu dótturfélags Parlevliet & Van Der Plas B.V. í Hollandi. Seljandi bréfanna er Kaldbakur hf. sem keypti þau á sínum tíma af Brim hf. Onward og Boyd Line verða rekin í nánu samstarfi en Onward hefur það sem af er ári séð um rekstur Boyd Line í umboði Kaldbaks hf. Gerðar hafa verið verulegar breytingar á rekstrinum sem skilað hafa árangri og hefur rekstur félagsins gengið vel.
Samherji mun í tengslum við þessi kaup auka hlutafé í Onward um 1,5 milljón punda en að öðru leyti munu kaupin fjármögnuð með eigin fé Onward svo og lántöku UK Fisheries.

Þá hefur Samherji keypt tæplega 3,6% hlut í Síldarvinnslunni hf. af Fjárfestingarfélaginu Firði ehf. Um er að ræða hlutabréf að nafnverði um 61 milljón króna á genginu 4,25 og nemur heildarkaupverð 259 milljónum króna. Eftir kaupin munu Samherji hf. og dótturfélag þess Snæfugl ehf. eiga ríflega 37% eignarhlut í Síldarvinnslunni hf.

Samherji hf. hefur samþykkt kaup á uppsjávarveiðiskipi frá Hjaltlandi. Um er að ræða 1214 brútto tonna tog/nótaveiðiskip sem smíðað var í Noregi 1979. Skipið er búið 3400 hestafla vél með kælibúnaði og getur borið allt að 1300 tonn. Kaupverð nemur um 120 milljónum íslenskra króna.
Þar sem skipið er ekki tilbúið til nótaveiða þarf að fjárfesta frekar í skipinu og er áætlað að sá kostnaður geti numið allt að 20 milljónum króna. Heildarverð skipsins yrði þannig um 140 milljónir króna. Skipið kemur í stað Oddeyrarinnar EA 210 sem verður lagt.