Greiningarfyrirtækið Moodys segir þrjá stærstu banka Íslands hafa sýnt miklar framfarir í kjölfar þess að hafa dreift fjármögnunarleiðum sínum, með það að markmiði að draga úr áhyggjum fjárfesta vegna áhættu skulda bankanna, að því er kemur fram í frétt Bloomberg fréttastofunnar.

Lynn Valkenaar, greiningaraðili Moodys segir að bankarnir hafi dreift fjármögnun sinni betur og aukið greiðsluhæfi og þurfi því enginn þeirra að leita á fjármagnsmarkaði næstu tólf mánuðina og það geti ekki þýtt annað en að miklar framfarir hafi átt sér stað.

Hann segir jafnframt að bankarnir hafi sýnt góðar niðurstöður, þrátt fyrir áhyggjur af hægingu efnahags og skuldaaukningu, uppgjör bankanna hafi verið frábær og ætti það að létta á þeim áhyggjum.