Miklar hækkanir hafa verið í Kauphöllinni á þeim félögum sem birtu uppgjör eftir lokun markaða í gær.

Hagar leiða hækkanir dagins en hlutabréf í félaginu hafa hækkað um 4,83% það sem af er degi. Hagar birtu uppgjör í gær þar sem kom fram að félagið hagnaðist um tæpa tvo milljarða á öðrum ársfjórðungi, en hann lækkaði lítillega milli ára.

Nýherji hefur hækkað um 4,67% í 44 milljón króna viðskiptum. Nýherji birti einnig uppgjör í gær þar sem kom fram að hagnaður á þriðja ársfjórðungi tæplega sjöfaldaðist milli ára. Rétt er þó að taka fram að hagnaður þriðja ársfjórðungs í fyrra var undir væntingum. Marel hefur einnig hækkað um 2,68% en hagnaður fyrirtækisins jókst um 50% frá sama fjórðungi í fyrra.

Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, hefur hækkað sem nemur 1,21% í dag, en þriðji ársfjórðungur félagsins var sá besti í sögunni fyrir Fjarskipti hvort sem litið er til tekna eða hagnaðar.

N1 hefur einnig hækkað sem nemur 3,18%, Icelandair Group hefur hækkað um 1,1% og VÍS hefur hækkað um 0,83%, en öll þessi félög birta uppgjör eftir lokun markaða í dag.