Gengi hlutabréfa fasteignafélaganna þriggja í Kauphöllinni hefur hækkað duglega frá opnun markaða í morgun. Hækkanirnar koma í kjölfar þess að Capacent birti verðmatsskýrslu um félögin þar sem gengi allra félaga er metið nokkru hærra en skráð gengi í kauphöll.

Gengi bréfa Regins hefur hækkað mest af félögunum þremur eða um 3,45% í 103 milljóna króna veltu. Þá hefur gengi bréfa Eikar hækkað um 2,39% í 282 milljóna króna veltu og Reita um 1,72% í 164 milljóna króna veltu.

Gengi Regins þegar verðmatsskýrsla Capacent kom út nam 14,4 krónum á hlut, en Capacent metur gengið hins vegar á 17,8 krónur á hlut eða 24% hærra. Gengi Eikar er metið á 7,5 krónur á hlut í skýrslunni, en var 6,3 krónur þegar skýrslan kom út. Þá er gengi Reita metið á 71,8 krónur en var 64,3 við útgáfu skýrslunnar.