Leiðrétt kl. 19:27:

Í upphaflegri frétt voru rangar hlutfallsbreytingar á gengi hlutabréfa vegna villu í útsendingu Nasdaq. Hlutfallstölur eru nú leiðréttar í samræmi við aðra útgáfu af uppgjöri Nasdaq. Aðrar upplýsingar eru óbreyttar.

Eigendur í öllum félögum nema Nýherja sáu grænt í dag á líflegum degi í Kauphöll Íslands. Velta með hlutabréf nam 2.427.348.650 kr. og heildarvelta var 7.462.696.413 kr., að meðtöldum skuldabréfum og hlutabréfum á First North.

Mest var hækkunin á bréfum í HB Granda, sem hækkuðu um 4,35% í 222.057.334 kr. heildarviðskiptum. Næst mest hækkun var á bréfum í Marel, um 3,52% í 452.998.894 heildarviðskiptum og þarnæst með bréf í Össuri, sem hækkuðu um 3,36% í 24.801.250 kr. heildarviðskiptum. Bréf Nýherja lækkuðu um 1,54% í einum viðskiptum sem námu 229.500 kr.

Sem fyrr voru það bréf í Icelandair Group sem mest velta var með og bréfin gengu kaupum og sölum fyrir 887.360.968 kr. í dag. Hækkunin nam 2,74%.