Miklar hækkanir hafa verið í Kauphöllinni frá opnun markaða í morgun þrátt fyrir fremur litla veltu. Gengi bréfa HB Granda hafa hækkað mest eða um 4,35%, Marel hefur hækkað um 3,17%, TM um 2,66% og Vodafone um 2,26%. Öll önnur fyrirtæki á aðalmarkaði hafa jafnframt hækkað nú í morgun, utan Nýherja sem stendur í stað, og hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 2,33%.

Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri H.F. Verðbréfa, segir fjárfesta trúa því að mörg fyrirtæki á markaði séu vel verðlögð. „Menn sátu kannski dálítið á sér í desember og mér finnst menn trúa því að markaðurinn eigi talsvert inni. Það eru engar stórkostlegar fregnir í gangi. Það sem er auðvitað búið að gerast undanfarið er að síðasta uppgjörstímabil var virkilega gott og svo höfum við fengið tvær vaxtalækkanir í millitíðinni.“

Aðspurður hvort lækkandi olíuverð hafi jákvæð áhrif segir hann svo vera. „Já, það hefur klárlega jákvæð áhrif á Icelandair, HB Granda, Eimskip og fleiri félög. Það og fleiri þættir hafa spilað inn í og jákvæðir hlutir hafa gerst á markaðnum núna að undanförnu.“