Fall er fararheill segir máltækið og það virðist vera að sanna sig í dag. Helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu lækkuðu við opnun markaða en staðan hefur gerbreyst eftir því sem liðið hefur á daginn og hlutabréfamarkaðir í bæði París og Frankfurt hækkuðu verulega.

Dax-vísitalan í Þýskalandi hækkaði um 2,9% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi um 2,2% en FTSE-vísitalan í London hafði hækkað um 0,7% þegar liðlega klukkutími lifði af viðskiptum.

Hlutabréf vestra hafa einnig tekið kipp og hefur Dow Jones hækkað um 2% og S&P 500-vísitalan um 2,3%. Uppgangur á mörkuðum er m.a. rakin til þess að Ifo-væntingavísitalan, sem mælir væntingar viðskiptalífsins í Þýskalandi, hækkaði í desember, annan mánuðinn í röð og kom hækkunin nú verulega á óvart enda höfðu sérfræðingar spáð lækkun.