Hlutabréf hækkuðu í Asíu í dag eftir að tilkynnt var í gær og í morgun um lækkun stýrivaxta í mörgum ríkjum í Asíu. Þetta er þriðji dagurinn í röð sem hlutabréfamarkaðir hækka í Asíu.

MSCI Kyrrahafsvísitalan hækkaði um 7,9% og hefur að sögn Bloomberg fréttaveitunnar ekki hækkað jafn mikið á þremur dögum frá því að hún var sett á fót árið 1987. Rétt er þó að hafa í huga að vísitalan hefur lækkað um 19% í október.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 10%, í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 10,4% og í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan um 9%.

Í Singapúr hækkaði Straits vísitalan um 9,2%, í Suður Kóreu hækkaði Kospi vísitalan um 11% og í Ástralíu hækkaði S&P 200 vísitalan um 4%.