Utanríkisráðuneytið gerði í ágústbyrjun talsverðar hrókeringar á sendiherrum sínum og munu ekki færri en sjö sendiherrar hafa vistaskipti í framhaldi af því og sá áttundi láta af störfum.

Nú eru 40 sendiherrar í þjónustu íslenska ríkisins, þar af 33 í fullu starfi, einn er forstjóri Þróunarsamvinnustofnunar, fimm eru í leyfi og einn er að hætta, þannig að ljóst er að nú er hreyfing á 20% af öllum sendiherrum Íslands.

Fjölgað um tíu á fimm árum

Í svari utanríkisráðherra á Alþingi árið 2003 kom fram að heildarfjöldi sendiherra árin 1995 til 2003 hafði vaxið úr 21 árið 1995 í þrjátíu árið 2003.

Á hverju ári höfðu að jafnaði einn til þrír sendiherrar verið í launalausu leyfi frá störfum. Árið 2005 var þessi tala komin upp í 33, þar af 28 starfandi. Nú er þessi tala 40 sem fyrr segir, þ.e. alls hefur fjölgað um tíu sendiherra í þjónustu íslenska ríkisins á seinustu fimm árum.

Sigríður Dúna til Noregs og Markús Örn hættir

Helstu breytingar sem nú verða eru þær að Stefán Skjaldarson sendiherra Íslands í Ósló kom til starfa á Evrópuskrifstofu utanríkisráðuneytisins í Reykjavík, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sendiherra í Pretoríu tók við sem sendiherra Íslands í Ósló, Guðmundur Eiríksson sendiherra fluttist frá alþjóða- og öryggissviði utanríkisráðuneytisins og tók við sem sendiherra Íslands í Pretoríu.

Þá fluttist Þórður Ægir Óskarsson sendiherra í Tókýó til starfa á alþjóða- og öryggissviði utanríkisráðuneytisins í Reykjavík, Stefán Lárus Stefánsson fastafulltrúi hjá Evrópuráðinu í Strassborg tók við sem sendiherra Íslands í Tókýó, Elín Flygenring prótókollstjóri tók við sem fastafulltrúi hjá Evrópuráðinu í Strassborg og Helgi Ágústsson sendiherra á viðskiptasviði tók við starfi prótókollstjóra.

Að lokum mun Markús Örn Antonsson láta af störfum sendiherra Íslands í Ottawa um næstu mánaðarmót og taka við störfum forstöðumanns Þjóðmenningarhúss. Sigríður Anna Þórðardóttir tekur við sem sendiherra Íslands í Ottawa.