Þrátt fyrir stóra gjalddaga jöklabréfa í þessum mánuði hefur nú verið gefið út meira af jöklabréfum en voru á gjalddaga. Alþjóðlegi bankinn Inter-American Development Bank gaf út í dag jöklabréf fyrir 17 milljarða króna. Bréfin eru á gjalddaga í febrúar á næsta ári og bera 11,5% vexti. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Þar segir að Inter-American Development Bank hafi tvisvar áður gefið út jöklabréf, 5 milljarða króna bréf sem var á gjalddaga fyrir ári síðan og 10 milljarða króna bréf sem renni út í júní í sumar.

389 milljarðar króna útistandandi

„Með þessari útgáfu nær heildarútgáfa í mánuðinum 81 ma.kr. en 68,5 ma.kr. voru á gjalddaga í janúar, þar af 45 ma.kr. í dag. Eina útgáfan í síðustu viku var á föstudaginn en þá gaf þýski bankinn KFW út jöklabréf fyrir 3 ma.kr. en mikið var um útgáfur fyrstu þrjár vikur ársins. Alls eru nú útistandandi jöklabréf að upphæð 389 ma.kr. og falla rúmir 8 ma.kr. á gjalddaga í febrúar og 27 ma.kr. í mars,“ segir í Vegvísi.