Evrópskar hlutabréfavísitölur lækkuðu mikið við opnun markaða í morgun í kjölfar gífurlegra lækkana á markaði í Asíu í nótt. Þetta má sjá á vef BBC News . FTSE-vísitalan í Lundúnum hefur lækkað um 2,36%, Dax-vísitalan í Frankfurt hefur lækkað um 3,07% og Cac-vísitalan í París um 2,83%.

Lækkanirnar eiga rætur sínar að rekja til Asíumarkaðar, en gengi kínverskra hlutabréfa lækkaði mikið í nótt og hafði Shanghai-vísitalan fallið um 8,5% við lokun markaða þar ytra. Er það mesta dagslækkun vísitölunnar frá árinu 2007 og er hún nú orðin lægri en hún var í upphafi ársins. Í síðustu viku lækkaði vísitalan um 12% og síðan um miðjan júní hefur hún lækkað um 30% í heildina.