Hlutabréf á Aðalmarkaði Kauphallarinnar hafa lækkað mikið í verði það sem af er degi. Gengi bréfa tryggingafélaganna hefur lækkað mest. TM hefur lækkað um 3,11%, en einnig hefur gengi VÍS lækkað um 2,66% og Sjóvár lækkað um 2,16%. Hlutabréf allra félaga hafa lækkað í verði utan Össurar, Nýherja og Eimskips sem standa í stað og N1 sem hækka um 0,13%.

Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, segir í samtali við Viðskiptablaðið að líklega stafi lækkanirnar að meginhluta af tilkynningu peningastefnunefndar Seðlabankans, sem birtist í morgun, um að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur.

„Seðlabankinn svo gott sem lofar stýrivaxtahækkun í ágúst og sá harði tónn hefur kannski komið mönnum á óvart. Svo gætu þetta líka verið timburmenn eftir góðu tíðindin í byrjun vikunnar varðandi afnámsáætlun stjórnvalda,“ segir Daníel, en síðustu tvo daga höfðu hlutabréf hækkað mikið í verði.

Úrvalsvísitalan, sem náði hæsta gildi sínu frá hruni í gær og stóð þá í 1.466 stigum, hefur lækkað um 1,11% og stendur nú í 1.450 stigum.