Evrópskar hlutabréfavísitölur lækkuðu umtalsvert í dag og það sem af er degi hafa bandarísku vísitölurnar fylgt í kjölfarið. Miðað við stöðuna um sexleytið í kvöld var Dow Jones vísitalan lægri en hún var í ársbyrjun.

Neikvæðar atvinnuleysistölur frá Bandaríkjunum höfðu sitt að segja um hreyfingar á mörkuðum og framleiðsla í Bandaríkjunum, Evrópu og Kína var undir væntingum markaðsspámanna. Gengi bréfa Facebook heldur áfram falli sínu og hafði lækkað um ein 6,42% klukkan sex í dag.

Breska FTSE vísitalan lækkaði um 1,14% í dag, þýska DAX vísitalan um 3,42% og franska CAC um 2,21%. Þrátt fyrir vandræðin á Spáni lækkaði spænska IBEX vísitalan ekki nema um 0,41%. Um sexleytið hafði Dow Jones vísitalan lækkað um 2,00%, Nasdaq um 2,52% og S&P 500 um 2,32%.