Úrvalsvísitalan lækkaði um meira en 2% á fyrsta hálftíma viðskipta í dag. Flest félög í Kauphöllinni hafa lækkað í verði. HB Grandi hafði lækkað um 3,6%, Marel um 2,8%, Síminn um 2,43% og Icelandair um 2,16% þegar þetta er skrifað um klukkan 10. Þá hafa TM, Vodafone og Eimskip einnig lækkað um meira en 1 prósent.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins má líklega rekja lækkanirnar að stórum hluta til þróunar á erlendum hlutabréfamörkuðum, en þeir hafa lækkað mikið í dag. Shanghai-vísitalan í Kína lækkaði um 7% í dag en aðeins var opið fyrir viðskipti þar í um 15 mínútur . Marel hefur talsverð umsvif í Kína og fyrirætlanir um vöxt þar í landi, og gæti það útskýrt hvers vegna félagið er meðal þeirra sem hafa lækkað hvað mest í dag.

FTSE100 vísitalan hefur lækkað um 2,7% og þýska DAX vísitalan um 3,5% það sem af er degi.