Líkt og kemur fram í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, hefur leiguverð á íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu nær staðið í stað á milli ára á meðan verð á sérbýli hefur hækkað um 3%. Á síðustu fimm árum hefur leiguverð eigna í fjölbýli hækkað um 27% og sérbýli um 28%.

Reiknar með að verð haldist svipað næstu mánuði

Verulega dró úr komum ferðamanna hingað til lands eftir að COVID-19 faraldurinn skall á. Undanfarin ár hefur hluti leiguíbúða á höfuðborgarsvæðinu verið leigður út til ferðamanna í gegnum Airbnb. Eftir að hrun varð á komum ferðamanna til landsins vöknuðu spurningar um hvort flóð Airbnb-íbúða inn á almenna leigumarkaðinn myndi keyra niður leiguverð.

Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans, kveðst þó ekki reikna með að leiguverð muni lækka verulega. „Leiguverð lækkaði nokkuð hratt skömmu eftir að COVID-19 faraldurinn skall á og þessar Airbnb-íbúðir komu inn á markaðinn. Verðið lækkaði t.d. um rúmlega 2% milli apríl og maí, en svo hækkaði það aftur í júní og júlí. Þessi lækkun hefur því að mestu leyti gengið til baka. Eins og staðan er í dag bendir ýmislegt til þess að leiguverð haldist svipað og það er núna næstu mánuðina."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .