Hlutabréf í kauphöllinni í Sjanghæ hafa fallið um níu prósent í viðskiptum í dag og hafa þau ekki fallið jafn mikið á einum degi í tíu ár. Á mánudag fór helsta hlutabréfavísitalan í Sjanghæ í fyrsta sinn yfir þrjú þúsund stig en hún hafði þá hækkað um fjórtán prósent á þessu ári og um 130 prósent í fyrra.

Í frétt Financial Times um fallið kemur fram að fjárfestar séu að nota tækifærið til þess að innleysa hagnað og að almennt telji þeir að markaðurinn hafi ofmetið gengi hlutabréfa. Auk þessa hafa væntingar um vaxtahækkanir sökum verðbólgumælinga aukist og fréttir um að seðlabanki landsins hafi aukið bindiskyldu fjármálastofnanna. Einnig kemur fram í frétt Financial Times að verðið á hlutabréfum hafi endurspeglað væntingar um að frekari efnahagslegar umbætur yrðu innleiddar á flokksþingi kommúnistaflokksins sem fer á fram á næstunni í Peking. Sökum þess að stutt er í þingið hafi fjárfestar ákveðið að innleysa hagnað.