Frá árinu 2009 hefur verð á kókaíni lækkað og haldist nokkuð stöðugt í rúmum 17.500 krónum hvert gramm, eins og það mældist í maí síðastliðnum. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir vísbendingar um að neysla, og þar með eftirspurn, á kókaíni hafi dregist saman frá hruni. Undir þetta tekur ónafngreindur heimildarmaður Viðskiptablaðsins, sem hefur nokkurra ára reynslu af markaði með fíkniefni, einkum kókaínmarkaði.

„Fyrir hrun var annar hver athafnamaður, bankamaður og háttsettir menn hjá stórfyrirtækjum, sem höfðu mikið á milli handanna, að nota þetta efni,“ segir hann. Færri geri það hins vegar nú en þá.

Athygli vekur að skammtímasveiflur á verði kókaíns eru mjög miklar, borið saman við verð á öðrum fíkniefnum. Það gefur til kynna að markaður með kókaín kunni að vera viðkvæmari fyrir inngripum yfirvalda, eða að miklar árstíðasveiflur séu á framboði eftir efninu. Þannig er til dæmis algengt að verð á kókaíni mælist hátt um áramót og í kringum verslunarmannahelgi, að minnsta kosti frá aldamótum og fram til ársins 2009.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .