Miklar skattahækkanir eru nú óumflýjanlegar í Bretlandi næstu árin til að greiða niður auknar skuldir vegna björgunaraðgerða í tengslum við heimsfaraldurinn. BBC segir frá .

Breska hugveitan Institute for Fiscal Studies segir skattahækkanirnar þurfa að nema yfir 40 milljörðum sterlingspunda – yfir 7 þúsund milljörðum króna – á ári, til að hefja endurgreiðslu þeirra 200 milljarða punda sem hafi verið dælt inn í hagkerfið frá upphafi faraldursins. Til samanburðar eyddi breska ríkið 668 milljörðum punda í fyrra.

Hækkanirnar muni þurfa að vara fram á miðjan næsta árataug, en því er nú spáð að hagkerfið verði 5% minna um það leyti en gert var ráð fyrir áður en faraldurinn skall á. Lántaka ríkisins er sögð fordæmalaus utan heimsstyrjaldanna tveggja. Ríkisskuldir muni ná um 110% af landsframleiðslu árið 2025.

Hugveitan segir þó ekki tímabært að rétta rekstur þjóðarskútunnar af enn, enda faraldurinn enn í fullum gangi, auk þess sem viðskiptahindranir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu geti orðið hagkerfinu erfiðar.

Afar lágt vaxtastig um þessar mundir gerir skuldabyrðina bærilega á næstunni, segir í skýrslu IFS. Í henni er þó að finna sviðsmynd þar sem þrátt fyrir þá lágu vaxtabyrði muni 40 milljarð punda árlegar skattahækkanir um og upp úr miðjum þessum áratug ekki duga til að ná skuldum ríkisins undir landsframleiðslu.