Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að snarpar sveiflur hafa verið í gengi japanska jensins undanfarna mánuði og að þær séu í takti við breytingar á áhættufælni fjárfesta. Þannig styrktist jenið verulega gagnvart öðrum gjaldmiðlum í síðustu viku, þar á meðal gagnvart íslensku krónunni, samfara aukinni áhættufælni á alþjóðamörkuðum. Samkvæmt því sem segir í Morgunkorninu hafa áhyggjur af afleiðingum undirmálslánakreppunnar í Bandaríkjunum á fjármálafyrirtæki aukist á ný og í kjölfarið hafa margir fjárfestar minnkað áhættusamar fjárfestingar sem fjármagnaðar hafa verið með lántöku í jenum.

Fylgni við hlutabréfamarkaði
Jenið hækkaði um 3,6% gagnvart Bandaríkjadollar og um 2,5% gagnvart evru í síðastliðinni viku. Hækkunin gagnvart krónu var hins vegar tæp 6%. Gengi jens gagnvart krónu er þó enn u.þ.b. 8% lægra en um síðustu áramót. Í Morgunkorni Glitnis segir að fróðlegt sé að bera saman sveiflur í gengi jens gagnvart krónu og sveiflur í hlutabréfaverði. Þar kemur fram að krónan, líkt og aðrar hávaxtamyntir, sveiflast í takti við breytingar á áhættufælni á alþjóðamörkuðum sem einnig endurspeglast í sveiflum hlutabréfaverðs. Hins vegar er hreyfing krónu gagnvart jeni talsvert sterkari en breytingar gengisvísitölunnar þar sem jenið hefur gjarnan styrkst á sama tíma og krónan og aðrar hávaxtamyntir hafa verið að veikjast.

Hagvöxtur glæddist á 3. ársfjórðungi
Jenið lækkaði nokkuð á ný í morgun gagnvart öðrum gjaldmiðlum í kjölfar orða forsætisráðherrans Fukuda um að styrking jens undanfarið hefði verið of hröð og að spákaupmenn þyrftu að hafa í huga að inngrip væru möguleg til þess að vinna gegn frekari styrkingu. Greiningardeildin segir vandséð hvernig Fukuda ætlar að hafa áhrif á gengi jensins til veikingar, því varla fýsir Seðlabanka Japans að bæta verulega í geysistóran gjaldeyrisforða sinn, og vaxtalækkun er tæpast í kortunum í bráð. Hagvöxtur á 3. ársfjórðungi reyndist 0,6%, sem var talsvert yfir spám, ekki síst vegna vaxandi einkaneyslu, en stöðnun einkaneyslunnar hefur verið viðvarandi vandamál í Japan undanfarin ár.

Áhættufælni og vextir ráða framhaldinu
Skiptar skoðanir eru á mörkuðum um hver þróun jensins verði fyrsta kastið, og mun hún fyrst og fremst ráðast af væntingum um vexti þar í landi annars vegar og áhættufælni á alþjóðamörkuðum hins vegar. Japansbanki tilkynnti um óbreytta stýrivexti í morgun, 0,5%, og var það í samræmi við spár og væntingar á mörkuðum. Hins vegar er því spáð að vextir í Japan muni hækka í 1% á næsta ári, þótt væntingar manna hafi verið að þokast í þá átt að vextir verði hækkaðir seinna en áður var spáð. Til skamms tíma munu þó fréttir af fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum og Evrópu hafa einna mest áhrif á gengi jensins gagnvart öðrum gjaldmiðlum, þar á meðal krónunni segir í Morgunkorni Glitnis.