Miklar sveiflur hafa verið á hlutabréfamörkuðum í Evrópu og á Wall Street og á gengi gjaldmiðla.

Mikil óvissa er um hvort Bandaríkin og Evrópa séu raunverulega að stíga upp úr kreppunni.  Sala á skuldabréfum írska ríkisins  á fimmtudaginn síðasta gaf mönnum vissar vonir um að úr væri að rætast verst settu Evrópuríkjanna.  Zapatero forsætisráðherra Spánar er einn þeirra sem í dag taldi land sitt vera komið fyrir vind.  Þrátt fyrir þetta lækkuðu allar helstu hlutabréfavísitölur.

Í Bandaríkjunum hafa fjárfestar fært sig yfir í gull, sem fór í 1.290 dali únsan og hefur aldrei verið hærra, og ríkisskuldabréf með þeirri afleiðingu að hlutabréf hafa lækkað það sem af er degi.  Orð Ben Bernanke um að seðlabankinn væri tilbúinn koma með innspýtingu inn í efnahagslífið olli því að fjárfestar drógu sig inn í skelina.  Bandaríkjadalur veiktist í kjölfar þessa eftir miklar sveiflur.