Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa sveiflaðist mikið í metviðskiptum dagsins í gær þegar ríflega 29 ma.kr. ríkisbréfa skiptu um hendur. Mest breyting var á kröfu styttri bréfanna, beggja RIKB 08 flokkanna og RIKB 09 flokksins, en krafa þeirra lækkaði um 43-104 punkta.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Krafa lengstu flokkanna þriggja hækkaði hins vegar um 14-33 punkta. Ástæðu kröfuhækkunar á lengri flokkum ríkisbréfa má eflaust að mestu rekja til aukinna væntinga um verðbólgu og þar með að lengra sé í vaxtalækkun Seðlabankans. Útboð í skuldabréfaflokka leiða gjarnan til kröfuhækkunar til skamms tíma, en útboð í RIKB 19 fór fram í gær. Að öllum líkindum hefur þetta tvennt haldist í hendur í gær og orsakað kröfuhækkun á lengri flokkum ríkisbréfa.

Vaxtamunur við útlönd lítill sem enginn

Í Morgunkorni kemur fram að aðgengi að lánsfé á erlendum mörkuðum er afar takmarkað um þessar mundir sem hefur komið fram í því að vaxtamunur við útlönd hefur nær þurrkast út á vaxtaskiptamarkaði.

„Þetta hefur svo leitt til þess að stöðutaka í krónu eftir einni helstu leið vaxtamunarviðskipta, þ.e. stuttum vaxtaskiptasamningum, gefur ekki það af sér sem stýrivextir Seðlabankans gefa til kynna. Þeir aðilar sem vilja taka stöðu í krónu beina því sjónum sínum frá vaxtaskiptamarkaði og yfir í meira öryggi sem finna má í styttri flokkum ríkisbréfa og því hefur krafa þeirra lækkað mikið og verð að sama skapi hækkað í hratt vaxandi eftirspurn,“ segir í Morgunkorni.

„Lækkun á vaxtamun í skiptasamningum hefur að mestu verið að koma fram í mars mánuði og í lok febrúar var krafa stysta flokks ríkisbréfa, RIKB 0806, 14,06% en var 12,25% í lok dags í gær. Áhrif tregara aðgengis að erlendu lánsfé á krónuna hafa einnig verið töluverð, en gengi hennar hefur lækkað um ríflega 15% frá áramótum og um 8,3% í mars. Hafa verður í huga að gengi krónunnar um þessar mundir markast einnig verulega af þróun á erlendum mörkuðum en gengi annarra hávaxtamynta hefur verið að gefa töluvert eftir, enda áhættufælni í hámarki.“