Ársfjórðungslegur hagvöxtur á Íslandi er mun breytilegri en í stærri ríkjunum og tengist það m.a. umfangi og tímasetningu fjárfestinganna. Þetta kemur fram í nýrri samantekt OECD. Þar kemur fram að hagvöxtur á 1. ársfjórðungi síðasta árs var 4,9% en neikvæður um 1,6% á öðrum ársfjórðungi sama árs. Þetta eru meiri sveiflur en þekkjast annars staðar.

Í samanburði við stærri ríkin er hagvöxtur á Íslandi mikill um þessar mundir og skýrist það af miklum fjárfestingum í stóriðju og væntingum heimilanna um vaxandi ráðstöfunartekjur.

OECD kynnti í lok maí nýja skýrslu um efnahagsmál í aðildarríkjunum. Þar kom fram að árið 2004 reyndist hagvöxtur víða minni en stofnunin hafði gert ráð fyrir í sambærilegri spá í desember 2004. Það hægði verulega á hagvexti sumra stærri aðildarríkjanna þegar líða tók á árið á meðan hagvöxturinn hélst góður í öðrum ríkjum. Miðað við árstíðarleiðréttar tölur um hagvöxt á fyrsta árfjórðungi þessa árs ásamt öðrum vísbendingum telur OECD að horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum séu að glæðast á ný, sérstaklega á evrusvæðinu.

Athygli vekur að hagvöxtur í Þýskalandi, Ítalíu og Frakklandi minnkaði
umtalsvert á síðari helmingi ársins 2004, m.a. tengt hækkun olíuverðs,
vandamálum í skipulagi vinnumarkaða og minni væntingum neytenda og
stjórnenda fyrirtækja. Hagvöxtur í Japan varð einnig umtalsvert minni í fyrra en í áætlun OECD og nú hefur hagvaxtaspáin fyrir Japan verið lækkuð fyrir árið í ár og næsta ár. Hagvöxtur í Bandaríkjunum og Bretlandi var hins vegar aðeins meiri en í fyrri spá stofnunarinnar, m.a. vegna vaxandi neyslu heimilanna. Í skýrslu OECD er reiknað með áframhaldandi en hægari hagvexti í þessum löndum.

Byggt á vefriti fjármálaráðuneytisins.