Í síðustu viku ákvað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að hækka stýrivexti í annað skipti að undangengnum nokkuð langvarandi lækkunarfasa. Vextirnir standa fyrir vikið í 1,25% og hafa ekki verið hærri síðan í maí á síðasta ári.

Samspil vaxtastigs og verðbólguþróunar hefur valdið nokkrum sviptingum í eftirspurn heimilanna eftir ólíkum lánsformum og sýnir meðfylgjandi graf mánaðarlega fjárhæð nýrra útlána bankanna með íbúðaveði til heimilanna, eftir lánsformum og að frádregnum upp- og umframgreiðslum. Á hægri ás er þróun verðbólgu og stýrivaxta. Til nýrra útlána teljast lán með nýjum eða breyttum skilmálum, til dæmis vegna breyttra vaxtakjara.

Á upphafsmánuðum ársins 2019 var mikill meirihluti nýrra útlána óverðtryggður, ýmist með föstum eða fljótandi vöxtum. Samhliða hjaðnandi verðbólgu og lækkandi stýrivöxtum á vor- og sumarmánuðum jukust vinsældir lána með fljótandi vöxtum - hvort heldur sem er verðtryggðra eða óverðtryggðra.

Þegar komið var fram á haust fór að bera meira á niðurgreiðslu fastvaxtalána - bæði verðtryggðra eða óverðtryggðra - þar sem niðurgreiðslur voru töluvert umfram nýja lántöku. Stýrivextir héldu áfram að lækka skarpt á fyrri hluta síðasta árs en verðbólga fór aftur á móti að aukast. Þessi þróun leiddi til stóraukinnar eftirspurnar heimilanna eftir óverðtryggðum lánum með fljótandi vöxtum en heildarfjárhæð nýrra óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum í júlímánuði 2020 var fimmföld á við sama mánuð ári fyrr.

Væntingadrifin sveifla í eftirspurn fastvaxta

Í júlí 2020 urðu þau kaflaskil að bera fór á aukinni eftirspurn eftir óverðtryggðum fastvaxtalánum og það sem eftir lifði árs jókst eftirspurnin verulega, mest á síðasta fjórðungi ársins. Sú þróun bendir til þess að heimilin væntu þess að vextir færu senn að hækka. Í takt við vaxandi verðbólgu fór einnig að bera á niðurgreiðslu verðtryggðra lána með fljótandi vexti til viðbótar við áframhaldandi niðurgreiðslu slíkra fastvaxtalána. Þess má geta að verðtryggð lán meðal lífeyrissjóða höfðu verið vinsæl og voru sviptingar þar jafnframt miklar, en þær tölur eru ekki í þessu grafi.

Í nóvembermánuði ársins 2020 náðu stýrivextir sögulegu lágmarki sínu fram til þessa dags, þegar þeir fóru niður í 0,75%, og virðist sú lækkun hafa dregið úr væntingum heimilanna um yfirvofandi vaxtahækkanir. Í kjölfarið dró verulega úr eftirspurn eftir óverðtryggðum fastvaxtalánum og var hlutdeild þeirra í nýjum útlánum töluvert lægri á fyrstu fimm mánuðum ársins 2021 en hún hafði verið á fjórða fjórðungi síðasta árs.

Í maí síðastliðnum dró til tíðinda þegar stýrivextir voru hækkaðir í fyrsta skipti frá því að lækkanir hófust. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sendi skýr skilaboð um að frekari hækkanir væru í kortunum samhliða vaxandi efnahagsbata. Það var enda ekki að spyrja að því, í júní var meirihluti nýrra útlána óverðtryggður með fasta vexti, í fyrsta skipti í yfir tvö ár, og í júlí hafði hlutdeild lánanna aukist enn frekar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .