Mikil viðbrögð urðu á skuldabréfamarkaði í gær í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans. Þá ákvað peningastefnunefnd að lækka vexti um 0,25 prósentur. Viðbrögðin má einkum rekja til þess að bankinn gaf í skyn að mögulega væri um síðustu vaxtalækkun að ræða að sinni, þrátt fyrir litla verðbólgu og mikinn framleiðsluslaka.

Þetta segir í Morgunkorni Íslandsbanka. „Auk þess steig bankinn nú smærra lækkunarskref en margir höfðu vænst. Skapaðist í kjölfarið mikill söluþrýstingur á markaði, þá einna helst á óverðtryggðum bréfum, og hækkaði þar með krafa þeirra þó nokkuð. Krafa bréfa í RIKB31 hækkaði um 28 punkta í gær og endaði í 6,94% og krafa bréfa í RIKB16 hækkaði um 22 punkta og endaði í 4,98%. Nú þegar þetta er ritað (kl.11:20) stendur krafa fyrrnefnda flokksins í 6,94% og krafa þess síðarnefnda í 4,96% og hefur þessi þróun þar með ekki gengið til baka hvað þessa flokka áhrærir,“ segir í Morgunkorni.

Segir að áhugavert verði að sjá hvort fjárfestar verði áhugasamir um skuldabréfaútboð sem fer fram á morgun og þau kjör sem ríkissjóði bjóðast, „þegar rykið tekur að setjast eftir dramatíkina á skuldabréfamarkaði í kjölfar yfirlýsingar peningastefnunefndar.  Reikna má með að lánskjör ríkissjóðs í útboðinu á morgun reynist óhagstæðari hvað RIKB31 varðar en í fyrsta útboði flokksins fyrir fáum dögum.“

Á morgun fer fram útboð á ríkisbréfum hjá Lánamálum ríkisins. Í boði verða tveirk flokkar ríkisbréfa, óverðtryggðu flokkarnir RIKB31 og RIKB16.

„Í síðasta útboði sem haldið var þann 21 janúar leit RIKB31 fyrst dagsins ljós og er óhætt að segja að vel hafi tekist til. Þannig bárust tilboð í flokkinn að fjárhæð 21,8 ma.kr. að nafnverði og ákváðu Lánamál að taka tilboðum fyrir ríflega 10,7 ma.kr. á kröfunni 6,6% sem var lítið eitt hærri en ársnafnvextir bréfanna. Jafnframt reyndust fjárfestar nokkuð áhugasamir um RIKB16 í síðasta útboði á flokknum sem fór fram þann 7. janúar. Bárust alls tilboð í flokkinn fyrir 4,8 ma.kr. að nafnverði og ákváðu Lánamál að taka tilboðum fyrir 3,2 ma.kr. á kröfunni 4,93%.“