Ferðaáætlanir farþega British Airways munu raskast á næstu dögum. Flugfélagið tók í notkun nýja flugstöð, Terminal 5, á Heathrow flugvelli á fimmtudag, en síðan þá hefur allt gengið á afturfótunum í henni. Fyrirtækið áætlaði að það myndi hætta við 54 flug í dag, samkvæmt frétt Financial Times, en auk þess hefur það hætt við 140 flug síðustu tvo daga.

British Airways segja þó að starfsemi innan Terminal 5 hafi batnað stöðugt á föstudaginn og flugferðir félagsins muni komast á áætlun aftur fljótlega.

Elísabet Englandsdrottning opnaði flugstöðina formlega 14. mars, en byrjað var að fljúga frá henni á fimmtudaginn.

Bygging stöðvarinnar kostaði 4,3 milljarða punda, en henni er ætlað að þjónusta 30 milljónir farþega á ári hverju. Árið 2005 var Terminal 5 viðamesta byggingarverkefni í Evrópu, en rúmlega 80.000 manns hafa unnið að því.