Siemens  mun segja upp allt að því 17.200 manns fram til ársins 2010 til að hagræða í rekstri sínum. Um er að ræða um 4% af heildarstarfsmannafjölda fyrirtækisins, en talið er að með þessum aðgerðum muni sparast allt að því 1,2 milljarðar evra. Financial Times segir frá þessu í dag.

Eitt markmiða hagræðingaraðgerðanna er að geta keppt betur við framleiðslurisann General Electric.

Um 6.400 störf munu tapast í Þýskalandi vegna aðgerðanna, en þorri uppsagnanna verður hjá milli- og yfirstjórnendum víðsvegar um heiminn. Talsmenn fyrirtækisins hafa ekki viljað tjá sig vegna þessara frétta.

Siemens skilaði  ársfjórðungslegu tapi í fyrra í fyrsta skipti í sex ár. Peter Loescher, forstjóri félagsins sem tók við í júlí í fyrra, setti hagræðingarmarkmið í nóvember síðastliðnum.

Loescher hefur fækkað stjórnendum og sameinað níu rekstrarsvið í þrjú – orku, iðnað og heilbrigðisþjónustu.