Forsvarsmenn Wizz air, eins stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, tilkynntu um miðjan aprílmánuð að þeir myndu hefja áætlunarflug hingað til lands frá pólsku borginni Gdansk um miðjan júní. Síðustu ár hefur Wow air verið eina flugfélagið til að bjóða upp á reglulegar ferðir héðan til landsins, eða til Varsjár sem er um 300 kílómetrum frá Gdansk.

Túristi hefur fylgst með verðbreytingum á farmiðum til landsins frá því að tilkynnt var um hina auknu samkeppni. Þannig hafði hún mikil áhrif á fargjöld Wow air viku síðar, en þá hafði verð á farmiðum til Varsjár í sumar lækkað úr 35.527 krónum í 25.221 krónur aðra leiðina.

Síðustu fimm vikur hefur þróunin hins vegar verið á annan veg samkvæmt Túrista, en nú hefur verð á farmiðum Wow air hækkað um tíund en hjá Wizz air hefur það lækkað um átján prósent. Farmiði aðra leiðina til Varsjár með Wow air kostar í dag að jafnaði 27.805 krónur en hjá Wizz air er verðið komið niður í 16.953 krónur.