Rannsóknarteymi deCODE hefur komist skrefi lengra í að koma hjartalyfinu DG041 á markað en jákvæðar niðurstöður hafa fengist í þróun lyfsins. Kári Stefánsson forstjóri deCODE tilkynnti þessar niðurstöður á fundi með fjárfestum og markaðsaðilum í gær.

Lyfið DG041 er nú á öðru stigi af fimm í þróunarferli og enn er alls óvíst hvenær lyfið kemst á markað. Ólíklegt er að það verði á þessu ári eða því næsta en nýjasti áfanginn í þróunarferlinu færir lyfið þó nær hinu endanlega takmarki en miklar vonir eru bundnar við lyfið og frammistöðu þess á markaði, verði það að veruleika.

Mikil eftirspurn er eftir lyfi af þessu tagi en lyfinu er ætlað að koma í veg fyrir myndun blóðtappa. Fjöldamörg lyf eru til sem þynna blóð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir blóðtappa en sá galli fylgir gjöf Njarðar að þau auka einnig hættu á blæðingum og öðrum áhættuþáttum þar sem að þau valda alhliða blóðþynningu.

Nýjustu niðurstöður rannsókna deCODE benda hinsvegar til að DG041 komi í veg fyrir storknun blóðs án þess þó að til alhliða blóðþynningar komi. Mikill eftirspurn er eftir slíku lyfi á markaði.