Rekstrarfélag IKEA á Íslandi, Miklatorg, hefur haft sterka stöðu á íslenskum húsgagnamarkaði á Íslandi í nokkuð langan tíma. Þórarinn Hjörtur Ævarsson, framkvæmdastjóri Miklatorgs, segir að þrátt fyrir sterka stöðu þeirra á markaði reynist óstöðug króna þeim sífellt óþægur ljár í þúfu.

„Það er gríðarlega erfitt að starfa í þessu umhverfi þar sem munurinn á hæsta og lægsta gengi krónunnar innan árs er 10-25%. Við festum verðið í ár og hefur þetta því auðsjáanlega mikil áhrif á afkomu, fyrir utan það að þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á alla kauphegðun, en sterk króna þýðir lægri afborganir af erlendum lánum og betra/lægra innkaups- og þá væntanlega útsöluverð.“ Sókn Miklatorgs liggur því í auknum mæli út fyrir landsteinana, en í ágúst í fyrra opnaði það nýja IKEA verslun í Litháen.

„Það hefur gengið mjög vel í Litháen en salan er nokkuð hærri en gert var ráð fyrir. Við sjáum fyrir okkur ákveðin samlegðaráhrif í innkaupum, sem vonandi koma íslenskum neytendum til góða.“

Fjallað er um Miklatorg í blaðinu 462 framúrskarandi fyrirtæki sem dreift var með Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Í blaðinu er fjallað um þau fyrirtæki sem stóðust styrkleikamat Creditinfo og komust í hóp framúrskarandi fyrirtækja. Þar er fyrirtækið í 62. sæti. Nálgast má blaðið með því að smella á hlekkinn Tölublöð .