Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf í viðræðum milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Bretlands úr ESB. Bretland er einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslendinga með um 12% af heildarútflutningi.

Árið 2015 fluttu Íslendingar út vörur til Bretlands fyrir 73 milljarða króna og til landsins fyrir 35 milljarða króna. Þetta er um 12% af öllu útflutningsverðmæti Íslands og um 5% af innflutningi. Umfang þjónustuviðskipta var einnig mikið en útflutt þjónusta árið 2015 nam 66 milljörðum króna sem er um 11% af heildar þjónustuútflutningi. Þá nam innflutt þjónusta 66 milljörðum eða um 18% af heildarinnflutningi.

Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman greiningu og helstu atriði sem skipta íslensk fyrirtæki máli í þessu samhengi. Í greiningunni sem finna má á vef samtakanna kemur fram að gert sé ráð fyrir því að Bretland muni ganga úr ESB innan tveggja ára. Vonast er til þess að fyrstu umferð samningaviðræðna um hvernig útgöngu Bretlands verði háttað muni ljúka á þessi ári. Í kjölfarið muni hefjast viðræður um framtíðarsamband Bretlands og ESB.

Í greiningunni segir einnig að fyrir þingkosningarnar í Bretlandi 8. júní síðastliðinn hafi allt bent til þess að um skýran aðskilnað yrði að ræða en líkur á mýkri nálgun eru taldar hafa aukist í kjölfar niðurstöðu kosninganna sem þóttu áfall fyrir Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. May hafði boðað til kosninganna í þeim tilgangi að styrkja umboð sitt í samningaviðræðunum.

Að lokum segir SA að óljóst sé hvort samningur Bretlands við ESB um framtíðarsamband ríkjanna muni jafnframt ná til Evrópska efnahagssvæðisins sem hefur veitt Íslandi aðgang að innri markaði ESB og þar með Bretlandsmarkaði. Líkur eru taldar á því að Ísland muni þurfa að gera nýjan samning við Breta um samskipti ríkjanna til að tryggja gagnkvæma hagsmuni.