Fyrsta Startup Iceland ráðstefnan var haldin hér á landi í vikunni í Andrews Theater á Ásbrú á Keflavíkurflugvelli. Ráðstefnunni er ætlað að tefla saman frumkvöðlum, fjárfestum og fyrirmönnum frá nokkrum af heitustu nýsköpunarsamfélögum veraldar.

Bala Kamallakharan, stjórnarformaður Clara og Auro Investment Partners, er stofnandi Startup Iceland en hann hefur verið búsettur á Íslandi í sex ár. Hann segist hafa mikla trú á nýsköpunar- og frumkvöðlamenningu á Íslandi og að Íslendingar séu vel í stakk búnir til að verða áhrifamiklir þátttakendur í nýsköpun á heimsvísu.

„Hér er mikið af tækifærum sem Íslendingar þurfa að nýta,“ segir Bala í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við erum með mikið af hæfileikaríku fólki sem á mikla möguleika í framtíðinni. Ég er sífellt að hitta menn sem hafa verið að forrita frá því að þeir voru 10 ára gamlir. Við þurfum að skapa umhverfi þar sem þessir menn og konur fá tækifæri til að vaxa.“

Nánar er fjallað um ráðstefnuna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.