Míla áformar að tvöfalda hraða á ljósveitukerfi sínu á völdum stöðum á þessu ári. Þá gæti hraði á heimilistengingum náð allt að 100 Mb/s. Þróun á allt að 1 gígabita tengingum er vel á veg komin og má búast við að Míla geti boðið þær  á næstu þremur árum, að því er segir í tilkynningu. Míla ætlar jafnframt að fjölga þeim heimilum sem hafa aðgang að Ljósveitu um 15%. Þegar því verður lokið munu um 80% heimila landsins hafa möguleika á að nálgast háhraðatengingar.

Fram kemur í tilkynningu Mílu að nú í janúar verði lokið við að tengja við Ljósveituna þá fjóra staði sem eftir eru á Vestfjörðum, þ.e. Patreksfjörð, Tálknafjörð, Bíldudal og Þingeyri. Í fyrsta ársfjórðungi verður svo hafist handa við uppbyggingu Ljósveitu á Skagaströnd og Akureyri. Þá er áætlað að setja upp Ljósveitu á Bifröst, á Hvanneyri, Varmahlíð, Hofsósi og Hólum í Hjaltadal.

Þá er áætlað að tengja sex staði í viðbót á öðrum ársfjórðungi, þ.e. Hólmavík, Laugarás, Sólheima, Aratungu, Laugarvatn og Kirkjubæjarklaustur.