Tónninn í yfirlýsingu peningastefnunefndar hefur verið mildaður frá síðustu stýrivaxtaákvörðun og hefur það haft talsverð áhrif á skuldabréfamarkaði. Þetta er mat greiningardeildar Íslandsbanka.

Eins og VB.is greindi frá hefur peningastefnunefnd Seðlabankans ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum. Jafnframt segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar að miðað við grunnspá bankans sé útlit fyrir að núverandi vaxtastig dugi til að halda verðbólgu í markmiði. Er þetta nokkur breyting frá síðustu yfirlýsingu í júní, en þá var tekið fram líklega þyrftu raunvextir Seðlabankans að hækka á næstunni, sem yrði þá mögulega með hækkun stýrivaxta.

Að mati greiningardeildar Íslandsbanka hefur þessi breyting í tón peningastefnunefndarinnar haft áhrif á ávöxtunarkröfu skráðra innlendra skuldabréfa í morgun.

Þá hafi yfirlýsingin einnig haft áhrif á gengi tryggingafélaga á hlutabréfamarkaði, en eignasafn þeirra er að stórum hluta innlend ríkistryggð skuldabréf. Það sem af er degi hefur TM hækkað um 1,06% og Vís um 1,59%.