Tíðindin í yfirlýsingu peningastefnunefndar eru að vaxtahækkunartónninn varðandi næstu skref í peningamálum hefur verið mildaður og er nú hin framsýna leiðsögn, sem fyrir ákvörðunina í dag var eindregið til hækkunar, minna afdráttarlaus í þá veru. Þetta segir Greining Íslandsbanka í umfjöllun um stýrivaxtahækkun Seðlabankans sem tilkynnt var í morgun.

„Þannig sagði í yfirlýsingu nefndarinnar í júní að einsýnt þætti að hækka þyrfti vexti  umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum. Mun mildari yfirlýsing er nú, og talar nefndin um að aukist verðbólga í framhaldi af kjarasamningum eins og spáð er mun peningastefnunefnd þurfa að hækka vexti enn frekar eigi verðbólgumarkmiðið að nást til lengri tíma litið,“ segir í umfjölluninni.

Greining Íslandsbanka segir að nefndin virðist ekki sannfærð um að verðbólgan muni aukast jafnhratt og reiknað er með í verðbólguspá bankans sem birt var samhliða ákvörðuninni nú, og það mildi tón hennar.

„Þá bætir peningastefnunefndin við þessari setningu: “Vaxtaferillinn mun einnig ráðast af því hvort öðrum stjórntækjum verður beitt til þess að halda aftur af eftirspurnarþrýstingi á komandi misserum.“ Á kynningarfundi í Seðlabankanum skýrði Már Guðmundsson seðlabankastjóri hvað í þessu fælist. Nefndi hann til að mynda samspil ríkisfjármála og peningastefnu, og að meira aðhald ríkisfjármála fæli í sér minni þörf á auknu peningalegu aðhaldi. Er þar væntanlega ekki síst horft til ráðstöfunar þess fjár sem kemur beint eða óbeint í hlut ríkissjóðs við nauðasamninga eða álagningu stöðugleikaskatts á slitabú,“ segir greiningardeildin.

Þá segir að Már hafi einnig tiltekið að til þess gæti komið á næstu misserum að beitt yrði tækjum til að stuðla að þjóðhagsvarúð. Þessi tæki gætu komið til sögunnar stig af stigi eftir því sem losun hafta og mótun framtíðarstefnu í peninga- og gjaldeyrismálum vindi fram.

„Már sagði takmarkanir á fjármagnsinnstreymi vera næsta skref, og gætu þær komið til framkvæmda á næstu mánuðum. Væntanlega yrði þar um einhvers konar skammtíma bindiskyldu að ræða, og væri hún til þess fallin að minnka áhrif vaxtamunar á gengi krónu og færa þar með virkni peningastefnunnar frá gengisáhrifum yfir í áhrif á markaðsvexti,“ segir enn fremur.

Lesa má umfjöllun Greiningar Íslandsbanka í heild sinni hér.