Milestone fjárfestingaveldið mun brátt ljúka við yfirtöku á litlum banka í Makedóníu um miðjan nóvember, eftir því sem fram kemur í frétt Macedonian Press Digest.


Í frétt Viðskiptablaðsins í dag kemur fram að Milestone bíður eftir staðfestingu makedónska fjármálaeftirlitsins á kauptilboðinu innan tíu daga, en bankinn sem um ræðir heitir Komercijalno Investiciona Banka AD Kumanova en er í daglegu tali kallaður KIB Kumanovo.


Haft er eftir Suzönu Cvetkovska, forstjóra KIB Kumanovo, að hluthafar bankans hafi 45 daga til að bregðast við kauptilboðinu. Gangi kaupin ekki eftir mun Milestone opna sinn eigin banka í Makedóníu. Milestone á þegar makedónska lyfjafyrirtækið Zegin.


Hagnaður KIB Kumanovo á fyrri hluta árs 2007 var 116 þúsund evrur, eða um 10,2 milljónir króna, en á sama tíma árið 2006 var tap á bankanum sem nam rúmlega einni milljón evra, eða tæplega 88 milljónum króna.