Að sögn Karls Wernerssonar, stjórnarformanns Milestone ehf., er yfirtaka þeirra á sænska fjármálafyrirtækinu Invik samkvæmt áætlun. Félagið ákvað að framlengja tilboð sitt til hluthafa Invik að beiðni sænska fjármálaeftirlitsins en að öðru leyti sagði Karl að hlutirnir væru að ganga eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Tilboð Milestone er gert í nafni Racon Holdings og hefur það verið framlengt til 29. júní næstkomandi en fyrra tilboðið rennur út í dag. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Í sænskum fjölmiðlum hafa verið vangaveltur um það hvort tilboð Milestone nái að ganga fram þar sem það stríði gegn reglum Kauphallarinnar þar sem tilboð til eigenda A og B hlutdeildar bréfa er ólíkt en boðið er 10% hærra verð fyrir A-bréfin. Aðspurður sagði Karl að þetta væri ekki mikið mál í þeirra huga. Þeir færu með 63% atkvæðaréttar og væru þannig komnir með alla stjórn á félaginu. Yfirtökutilboð þeirra til annara hluthafa væri þar að auki langt yfir síðasta markaðsvirði segir í frétt Viðskiptablaðsins.

Í sænska viðskiptablaðinu Dagens Industri kom fram í gær að hópur fjárfesta teldi að það ekki góða siði að gera ólík tilboð í A og B hluta. Þar fara fyrir stofnannafjárfestarnir Alecta, Fjärde AP-sjóðurinn, Nordea sjóðurinn og Swedbank Robur sjóðurinn og hafa þeir skrifað sænska fjármálaeftirlitinu bréf og lýst yfir áhyggjum sínum. Til samans fara þeir með um 20% hlut í Invik. Sumir þeirra áttu hlut að máli þegar sala TraudeDoubler til AOL var stöðvuð í mars síðastliðnum. Stærsti eigandi Invik, Stenbecksfären, hefur tekið tilboði Milestone. Að sögn Guðmundar Ólasonar hjá Milestone kemur ekki til greina af þeirra hálfu að hækka tilboðið.

Milestone ehf. keypti í lok apríl ráðandi hlut í sænska fjármálafyrirtækinu Invik & Co. AB og gerði öðrum hluthöfum um leið yfirtökutilboð. Heildarvirði viðskiptanna er um 70 milljarðar íslenskra króna. Invik & Co. er fjármálafyrirtæki með víðtæka starfsemi á sænskum trygginga- og fjármálamarkaði, auk þess sem félagið rekur sérhæfða bankastarfsemi í Lúxemborg.